Skátastarf í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins árið 2020 er markmið verkefnisins Skátastarf á nýjum slóðum. Skátahreyfingin miðar sitt starf við að börn og ungmenni verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar. Skátastarf á erindi við alla og það er mikilvægt öllum samfélögum að bjóða upp á skátastarf jafnt og annað ungmenna- og íþróttastarf. Skátar eru stærsta ungmennahreyfing í heimi og öflugt skátafélag er eitt af flaggskipum hvers samfélags.

Aðstoðarskátahöfðingi stýrir starfi verkefnahóps Skátastarf á nýjum slóðum þar sem eru reyndir foringjar og fólk úr félaga-, fræðslu- og dagskrárráði Bandalags íslenskra skáta (BÍS). Allir í hópnum hafa mikla reynslu af foringjastörfum sem og  rekstri skátafélaga. Verkefni hópsins er að styðja þá einstaklinga sem taka að sér skátastarf á sínu heimasvæði.

Skátastarf á nýjum slóðum byggir á sjálfboðaliðum á hverjum stað sem leiða skátastarfið en fá til þess stuðning BÍS og verkefnahópsins. Gert er ráð fyrir a.m.k. 3 sjálfboðaliðar taki ábyrgð á starfinu, en að sjálfsögðu með aðstoð foreldra og annarra áhugasamra. Gert er samkomulag milli sjálfboðaliðanna og BÍS um 6-8 vikna samstarfsverkefni . Sjálfboðaliðarnir leggja fram sína krafta og  BÍS býður upp á margvíslegan stuðning meðal annars:

  • Grunnnámskeið um gildi skátahreyfingarinnar og skátaaðferðina
  • Þjálfun í foringjastörfum
  • Viðfangsefni fyrir skátafundi
  • Tvo tengiliði úr verkefnahópnum fyrir hvern þéttbýliskjarna
  • Aðstoð við að halda skátafundi (Tengiliður mætir á fundi en tekur sífellt minni þátt eftir því sem foringjar á staðnum öðlast meiri reynslu).
  • Samstarfs- og stuðningsnet nýrra foringja

Þegar 6-8 vikna reynslutíma er lokið er verkefnið endurmetið og tekin ákvörðun um hvort gera eigi nýtt samkomulag eða láta staðar numið. Ef það er vilji til að halda skátastarfi áfram býður BÍS áfram upp á stuðning.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við okkur og heyra nánar um verkefnið og möguleikana sem eru fyrir hendi.

Með skátakveðju,
Verkefnahópur um Skátastarf á nýjum slóðum.

Scroll to Top