Leikjastjórn

Þú ert hér

Leikjastjórn

Í upphafi er rétt að taka fram að leiki skal leika af gleði, sanngirni og öryggi. Mikilvægt er að leggja ríka áherslu á þessa þætti með þátttakendum áður en leikur hefst. Þá er nauðsynlegt að fara yfir helstu öryggisleiðbeiningar; merki og tákn og æfa þau áður en leikar hefjast. Áríðandi er að fara vandlega yfir allar leikreglur í upphafi hvers leiks. Þýðingarmikið er að þátttakendur finni fyrir leikgleði stjórnandans – að hann sýni tilþrif í leikjastjórninni, kynni leiki á áhrifaríkan hátt (gjarnan með leikrænum tilburðum og ævintýralegum sögum), hlægi með, sé hvetjandi og styðjandi og grípi hratt inn í ef eitthvað er að fara úrskeiðis. Hafa ber í huga að hætta skal leik þá hæst hann stendur. Ekki láta leik fjara út nema að það sé markmið hans. Stundum er tilgangur leikja að draga fram erfiðar aðstæður, láta reyna á böndin í hópnum – þá má stjórnandi ekki vera of fljótur að koma með svör og lausnir. Stjórnandinn þarf því að lesa aðstæður, hópinn og markmið leiksins og grípa inn í á rétta augnablikinu ef með þarf.

Siðareglur

Leikir og þrautir þar sem leiðbeinendur benda á nokkrar reglur sem eru viðhafðar í leik og starfi, fyrir utan það að leika sér leiksins vegna. Eftirfarandi eru reglur í leikjum sem við förum í.

 • Það á að leika af öryggi. Allir eiga að passa hver annan og sjálfan sig.
 • Það á að leika af sanngirni. Það eiga allir að vera með og svindl er óþarft.
 • Það á að leika af ákafa. Gefið allt ykkar í leikinn og þá verður gaman.
 • Það á að skemmta sér í leik. Til þess erum við að leika okkur.

Þátttaka er val

Þá er að endingu mikilvægt að taka fram að hver þátttakandi verður að ákveða fyrir sig hvað hann vill að gera. Ekki neyða neinn til þess að ganga með bundið fyrir augu ef viðkomandi treystir sér ekki til þess. Hann gæti í þess stað gengið með lokuð augu og opnað þau ef líðan krefst þess eða hreinlega hjálpað til upp á öryggi í leiknum. Þátttaka í leik á alltaf að vera val.

 

Stuðarinn

Mikilvægt er að stjórnandi skýri út fyrir þátttakendum tækni sem nýtist til þess að forða slysum. Þegar við erum í leik þá gætum við okkar sjálf og annarra með því að lyfta höndum upp í bringu hæð, snúum lófunum fram og höfum framhandleggi lítið eitt beygða. Þannig meiðum við okkur lítið ef við skyldum rekast á aðra og erum tilbúnari undir fall og veltu ef við skyldum detta. Einnig er mikilvægt að hafa „stuðarann“ okkar uppi ef við erum að hjálpa vinum okkar í ýmsum leikjum og þrautum. Þegar stjórnandinn kallar „stuðarann upp” þá setjum við hendurnar upp með lófa frá okkur.

 

Að ganga blindandi

Mikilvægt er að kenna þátttakendum hvernig á að ganga blindandi (draga fætur eftir jörðinni og vera með stuðarana í lagi).

 

Griðasvæði líkamans

Í ærslafullum leikjum þarf að taka fram að frambúkur og höfuð séu griðasvæði. Þá líkamshluta megi ekki snerta. Í mörgum traustsæfingum er kostur að krossleggja handleggina og leggja lófa á sitt hvora öxlina til þess að loka af brjóstkassa.

 

Falla og velta æfingar

Ekki kunna allir krakkar að detta. Við viljum að börnin séu óhult og örugg með sjálf sig og þess vegna sýnir stjórnandi hvernig á að falla og velta ef einhver skyldi detta. Þegar maður fellur á maður að setja aðra hvora öxlina fram og hönd fram. Ekki til að stöðva fall heldur til að leiða líkamann inn í veltu yfir á bakið og upp á fæturna aftur. Höfuð snýr frá áttinni sem maður veltir sér í. Þetta er ekki kollhnís eða velta á hliðinni heldur 45° sambræðingur af hvorutveggja. Hægt er að sýna/framkvæma/æfa úr standandi stöðu eða krjúpandi.

Æfingar á grasi:

 1. Látið þátttakendur fara nokkrar veltur milli tveggja punkta. Hafið gott bil á milli þátttakenda. Farið hægt fyrst, aukið svo hraðann, farið úr krjúpandi stellingu í standandi stellingu. Hafið auga með öllum og leiðbeinið, látið engan fara fram úr sjálfum sér.
 2. Þegar allir hafa náð góðri leikni er hægt að láta þátttakendur skokka rólega á milli tveggja punkta og þegar stjórnandi kallar:„Falla” þá eiga allir að taka veltuna.

 

Þagnarmerki eða saltkjöt og baunir ... túkall

Kennið þátttakendum merkið, þ.e. að þegar hnefinn er á lofti þá eiga allir að lyfta krepptum hnefa og hafa hljóð. Markmiðið er að fá þögn í hópnum og það er sýnt með því að allir hnefar séu á lofti.

 

Önnur leið er að stjórnandi klappi saman höndunum í taktinum „saltkjöt og baunir”

-.. - - þátttakendur svara „túkall“ - - . Er þetta snjöll leið því klappið heyra flestir og svarið krefst virkni og einbeitingar af þátttakendum. Í flestum tilvikum þagna allir fljótlega og beina athygli sinni að stjórnandanum.

 

Þumall upp/niður, já/nei merki

Í stað þess að spyrja alla hvort þeir hafi náð leiðbeiningum þá gefa allir merki með þumlinum. Á þennan hátt drukkna enginn nei í mörgum jáum. Stjórnandi getur betur séð hvort allir eru með á nótunum. Þannig spyr stjórnandinn um leið og hann réttir upp þumalfingur:„Hafa allir skilið leiðbeiningarnar?“ Þeir þátttakendur sem hafa skilið leiðbeiningarnar rétta þumalfingur upp – en hinir niður.

 

Gjörðu svo vel

Í leikjum er sagt „gjörðu svo vel“ þegar þátttakendur mega byrja á verkefnum, t.d. að leysa þrautir, ganga um borð í strætó o.s.frv.

 

Efni og áhöld

Marga leiki er hægt að leika án þess að hafa einhver sérstök efni eða áhöld. Nokkrir hlutir geta þó gert gæfumuninn. Margir leikjastjórnendur og félagasamtök hafa komið sér upp ákveðnum leikjabúnaði sem gott er að geta gripið til þegar kallið kemur. Grunnbúnaður þarf hvorki að vera flókinn eða dýr:

 • 10-20 klútar eða buff til að binda fyrir augu
 • 10 metra kaðall, 3-4 cm í þvermál
 • 25 metra kaðallína
 • 2-3 mjúkir boltar í brennóboltastærð
 • 2-3 húllahringir
 • 10-20 blöðrur
 • 10 teppabútar (30 x 30 cm)